Friday 3 February 2012

Copenhagen May 2011.

Snjókornin falla niður af himninum, bílarnir spóla á götunum og fólkið er dúðað í sínar hlýjustu flíkur með rautt nef og frískandi bleikar kinnar. Það er alltaf smá sjarmi yfir snjónum, þó sér í lagi þegar maður liggur upp í sófa með teppi og eins og eitt kertaljós á borðinu. Ég læt hugann oft reika til hlýrri daga og hversu yndislegt það er þegar sólin skín. Það er kannski minn veikleiki, það er að segja að lifa ekki í núinu og finnast grasið grænna hinu megin. 

Við Kari-Anne vinkona mín fórum á fallegum vordegi í Fredriksberg Have og lágum á teppum í sólbaði. Ég hef sjaldan upplifað svona heitan maí mánuð eins og í Danmörku í fyrra. Það var yndislegt. Garðurinn var fullur af stúdentum sem opnuðu bjór, spiluðu fótbolta og hlógu hátt. Við ákváðum að ná okkur í smá lit áður en við skelltum okkur í bekkjarpartý. Ég sakna Kaupmannahafnar.