Monday 14 February 2011

... Ekkert American, Bara Kjút!

Í gegnum árin hef ég unnið í blómabúð og dagur hins heilaga Valentínusar hefur ekki farið framhjá mér frekar en aðrir stórir dagar í blómaverslun. Þó svo að ég sé einhleyp finnst mér þessi dagur kjút!

Íslendingar eru oftar en ekki á móti þessum degi, vegna þess að hann er komin frá Ameríku! Ég skil það svo sem þar sem margur íslendingurinn er hræddur um að við missum marks og verðum alveg eins og ameríkanarnir! Við höfum kannski villst af leið, allavega ef marka á það að við séum feitust og drekkumst mest kók miðað við höfðatölu - annars gerum við íslendingar örugglega allt mest og best miðað við höfðatölu, ef út í þá sálma er farið. 

Með þessum pistli ætla ég samt að taka hanskann upp fyrir vini mínum, Valentínusi! Vetrarmánuðirnir eru ekki vinir mínir, og þegar sólin er að spara komu sína, snjórinn og slabbið hafa verið daglegir gestir í margar vikur - þá finnst mér bara ekkert athugavert við það að gera sér dagamun þann 14. febrúar! Ég er þó ekki að tala um að fólk þurfi að eyða því sem eftir er að mánaðarlaunum að fara út að borða á flottasta veitingastað bæjarins, kaupa Iphone, panta utanlandsferð eða taka ritnámskeið til þess eins að skrifa hið fullkomna valentínusarkort! Nei, í mínum huga er Valentínusardagurinn bara dagur sem minnir okkur á að vera góð við hvort annað, sýna það hversu miklu máli fólkið í lífi okkar skiptir okkur. Sumir gætu þó sagt að þeir gætu alveg eins gert það 14. janúar - en það er nefnilega málið - gerir fólk það þá? Þarf ekki smá "push" fyrir fólk til þess að það gleymi ekki hvað það er sem skiptir máli í lífinu? 

... en þegar öllu er á botninn hvolft, þá á fólk alveg rétt á skoðunum sínum um Valentínusardaginn - en bið þá, sem ekki eru sammála mér, að eyðileggja ekki kjút fyrir mér:) 




Dís